Skip to Content

Villtir í hafi

Ár samið: 
1938
Texti / Ljóð: 

 

Sérðu land? Sérðu land?

Spurði maður mann,

og myrkrið vef sinn um skipið spann.

Ekkert hljóð, ekkert hljóð,

aðeins gjálp og hið lága ló,

sem lognaldan dúði við kinnung og bóg.

En allt í kring veglaust og voldugt haf.

Og vindurinn svaf.

Hvar er land?

 

Ég sé land.

Hann sér land, kallar maður til manns.

Út í myrkrið er sjónum rennt.

Og fagurvængjað flýtur um borð

hið fagnandi lausnarorð.

Það er háreysti og ys.

Það er hlátur og þys.

Það er hrópað og bent.

 

Var það hér, eða hvað? Svo er hikað við.

En menn hafa engan frið.

Sástu land? Ó, en hvar?

Var það hér? Eða þar?

Þá er hljótt. Þá er ekkert svar.

Hvar erum við stödd? Ég sé ekkert land.

Svo varð aftur hljótt.

Það var auðn og nótt.

Það var ekkert land.

 

Hvar í riti: 
ÁTTATÍU OG ÁTTA KÓRLÖG (í alþýðlegum búnaði)
Höfundur texta: 
Guðmundur Böðvarsson


Drupal vefsíða: Emstrur