Æviágrip Björgvins Guðmundssonar tónskálds
Björgvin Guðmundsson fæddist að Rjúpnafelli í Vopnafirði 1891. Hann var bóndasonur, yngstur 5 systkina sem komust á legg. Faðir hans, Guðmundur Jónsson var forsöngvari í Hofskirkju og stýrði hann sönglífi á heimilinu dag hvern með heimilisguðsþjónustum. Það kom fljótt fram að Björgvin laðaðist að tónlist en þegar hann var aðeins tólf ára gamall tók hann við af föður sínum, sem þá var orðinn veikur og stjórnaði tónlistarlífi heimilisins. Þar sem ekkert hljóðfæri var til á bænum reyndi Björgvin á einhvern hátt að framkalla tónlist og bjó sér til afar frumstætt strengjahljóðfæri með því að festa snærisspotta við stól og hinn endann við kefli sem hann strekti og slakaði á víxl og gat þannig fengið fram tóna og samið lög. Ef einhversstaðar í sveitinni var hljóðfæri eða söngur, reyndi hann að taka þátt í því starfi. Með þessu móti lærði hann smátt og smátt hlutföllin milli tóntegunda og lærði af sjálfsdáðum að skrifa upp bæði takt- og tónrétt þau lög sem hann kunni. Kristján Wium organisti í Vopnafjarðarkirkju, hvatti Björgvin til dáða bæði við að semja tónlist og kenndi honum það litla sem hann kunni í hljóðfæraleik áður en hann fór til Ameríku. Eitt af fyrstu lögum sem Björgvin samdi var við sálm Hallgríms Péturssonar „Bænin má aldrei bresta þig.“ Það lag kom svo að segja á svipstundu inn í huga hans með öllum röddum og er það prentað eins og hann gekk frá því 17 ára gamall.
Það var með miklum trega sem Björgvin fluttist frá Íslandi árið 1911. Fjölskylda hans var á förum ásamt mörgum sveitungum, til Kanada í von um betra líf. Jafnframt vonaðist fjölskyldan til að þar myndi vera meiri líkur á að Björgvin kæmist í snertingu við tónlistarlíf og hann gæti þroskað tónlistargáfur sínar.
Þegar til Kanada kom voru ekki allir svo lánsamir að fá vinnu. Bræður Björgvins gerðust bændur en Björgvin gekk á milli og ýmist vann hann við þreskingar eða húsasmíðar. Atvinna var af skornum skammti. Jafnframt þessu reyndi hann að komast í samband við tónlistarmenn, söng í kórum og samdi lög eftir því sem andinn blés honum í brjóst. Hann var læs á nótur og var fljótur að átta sig á samhengi tóna og hljómagang laga. Með þessum hætti lærði hann margt sjálfur en reyndi að sækja tíma í hljóðfæraleik og tónfræði. Fjölskylda Björgvins studdi hann vel til dáða. Hann fékk að hagræða vinnu sinni á bænum til að geta setið við að semja og hann notaði hverja lausa stund sem hann átti til að semja tónverk.
Smám saman fóru samlandar hans að veita tónlistargáfum Björgvins athygli. Hann var beðinn um að stjórna kórum og farið var að syngja tónverk hans í auknu mæli. Veturinn 1926 æfði Björgvin 60 manna kór til að frumflytja helgikantötuna ADVENIAT REGNUM TUUM (Til komi þitt ríki). Kantatan var flutt í Fyrstu lútersku kirkjunni í Winnipeg. Hæfileikar hans þóttu ótvíræðir og vildu samlandar hans í Kanada styrkja hann til tónlistarnáms. Fór svo að hann ferðaðist til London ásamt eiginkonu og dóttur og stundaði nám við The Royal College of Music og var aðal kennari hans þar Herbert Howells. Hann brautskráðist þaðan eftir aðeins tveggja ára nám. Eftir námið í London sneri hann aftur til Kanada og starfaði þar til ársins 1931 en þá var hann skipaður söngkennari við barnaskólann og Menntaskólann á Akureyri. Á Akureyri stofnaði hann Kantötukór Akureyrar, sem frumflutti mörg af stórverkum hans og stjórnaði Björgvin kórnum um 23 ára skeið.
Björgvin Guðmundsson var eitt af afkastamestu tónskáldum á Íslandi á sínum tíma. Hann var brautryðjandi í að semja kórverk í stórum formum. Eftir hann liggja 5 oratoríur (söngdrápur) en í allt samdi hann á sjötta hundruð verka í smærri og stærri formum – auk eins sjónleiks, Skrúðsbóndinn, sem gefinn var út árið 1942 og sýnt á Akureyri við góða aðsókn. Þá hefur fjöldi verka Björgvins verið gefinn út á prenti, auk sjálfsæfisögu hans – Minningar sem kom út árið 1950 og nær til ársins 1931.
Björgvin Guðmundsson lést á Akureyri 4. janúar árið 1961.
Ævibrot from hljómblik Minningarsjóður BG on Vimeo.