Söngleikurinn Skrúðsbóndinn.
Skrúðsbóndinn er fyrsti íslenski söngleikurinn. Hann samdi Björgvin Guðmundsson tónskáld, sem fæddur var á Vopnafirði 1891, dáinn á Akureyri 1961. Söngleikurinn um Srúðsbóndann var fyrst sýndur á leiksviði 20 mars 1941 af Leikfélagi Akureyrar í leikstjórn Ágústs Kvaran. Var mikið í sýninguna lagt, búningar og leikmynd umfangsmikil auk þess sem sameinuðust þar listgreinarnar þrjár; dans-, söng- og leiklist. Sýningin sló öll aðsóknarmet og var húsfyllir þrettán sýningar. Skrúðsbóndinn var tekinn aftur til sýningar árið 1966 en þá í styttri útgáfu og enn á aldarafmæli höfundar árið 1991 en þá var sýnt í Akureyrarkirkju og leikritið stytt verulega svo það hentaði til sýningar í kirkjunni.
Söngleikurinn byggir á íslenskri þjóðsögu um Skrúðsbóndann, tröllið í eynni Skrúð, sem seiddi til sín fagra og saklausa prestdóttur.
Hann hefst með forspili. Sviðið er svefnherbergi prestshjónanna á Hólmum í Reyðarfirði og hefst leikurinn fyrstu nóttina sem prestshjónin eiga þar heima. Prestskonan sefur í rúminu en Heiður dóttir hennar á fyrsta ári er sofandi í vöggu. Birtist þá Norn skyndilega, grimmúðleg í fasi. Hún magnar seið og leggur álög á ókomna framtíð Heiðu. Átján árum síðar kynnumst við Heiði. Hún er falleg og góð, heimasæta, sem bíður unnustans á fallegri Jónsmessunótt. Örlagaþræðir eru þó rétt að hefja spuna sinn þegar Gríma, sem er hvort tveggja í senn ráðskona og dulbúin norn, vanhelgar staðinn og magnar þangað bóndann í Skrúð, þurs, sem var í dulargerfi konungssonar. Hún segir Heiði að hann ferðist um dulbúinn sem jarðfræðingur en sé í raun konungssonur. Heiður heillast af manninum, sem segist heita Friðþjófur og sýnir henni hulda heima í gegnum sjóngler. Þar eru hallir og aldingarðar, allt annar heimur en sá sem Heiður býr í. Henni þykir þessi heimur spennandi og verður afhuga öllu hversdagslegu vafstri heima fyrir. Heimamenn og þar á meðal unnustinn verða strax vör við breitingar sem orðið hafa á Heiði en Gríma er augljóslega sú sem kemur inn hjá henni hugmyndum um að henni bíði dásamlegt líf í faðmi konungssonarins. Loks er það í messu á páskadagsmorgni að Friðþjófur kemur og sækir Heiði. Hún rís á fætur í miðri messu og hleypur út úr kirkjunni til móts við nýja unnustan, Friðþjóf konungsson, sem kominn er á skipi sínu til að sækja hana. Presturinn fyrirskipar söfnuðinum að loka kirkjunni og varna Heiði útgöngu en hún sleppur, læsir kirkjunni á eftir sér og hleypur niður að sjó. Eyjan Skrúður er þar úti á firðinum.
Móðir hennar hnígur örend niður á kirkjugólfið, kirkjugestir skelfingu lostnir.
Rúmlega tólf árum síðar sjáum við Heiði í óvistlegum helli. Hún er veikluleg og yfirbragð hennar allt sem daprast að verða má, vitskerrt og úttauguð eftir áralangt svall.
Skrúðsbóndinn reynir að leiða henni fyrir sjónir að hver er sinnar gæfu smiður. Heiður ásakar þursinn um að hafa svikið sig og leitt í glötun en fær nú að heyra að hún hafi sjálf valið það líf sem hún lifði í svalli og slarki, þar til hún hlaut verra af. Eða eins og Skrúðsbóndinn sjálfur segir:
Hver getur varnað þeim drukknun, sem þolir ekki að sjá poll án þess að stinga sér í hann?
Heiður streitist við og finnst betra að kenna öðrum um ófarir sínar, þursinn sé sökudólgurinn. En boðskapurinn er skýr þegar Gríma kemur og segir henni að hún verði að forherða hjarta sitt í hinu illa eins og hún hafi sjálf gert. Með því öðlist hún frið, laus við samviskubit, forthert og ill. Heiður virðist eiga sér einhvers von því hún getur ekki hugsað sér að verða eins og Gríma. Heiði birtist förukona, sem er einskona táknmynd hins góða. Förukonan sýnir henni fram á að hún eigi enn von, hún geti snúið við blaðinu og öðlast fyrirgefningu. Heiður iðrast innilega fyrri breytni, hún snýr heim á æskuslóðir og öðlast að lokum frið í sálu sinni.
Þannig er söguþráður söngleiksins: ung stúlka lætur glepjast af glys og gjálífi og telur sér trú um að þar muni hún finna hamingjuna en á sama tíma bakar hún foreldrum sínum og ástvinum ómælda óhamingju og áhyggjur. Þegar hún loks sér að sér finnur hún styrk í trúnni og fær hjálp frá góðum öflum til að rata aftur heim. Á margan hátt má segja að söguefnið sé sígilt og finna megi hliðstæður í fyrrtum veruleika nútímans.
Grípum niður í Minningar Björgvins þegar hann var 7 eða 8 ára gamall.:
„Á heimili okkar man ég að til voru fjórar ljóðabækur um þessar mundir (1898-1899). Voru þær kallarðar: Kristjánsbók, Matthíasar bók, Steingrímskver og Bóla eða Hjálmarskver og svo heyrði ég getið um einhverja Jónasarbók og var mér enda kennt ýmislegt úr henni. Var mér sagt að höfundar allra þessarra bóka væru eða hefðu verið skáld þótti mér mikilsvert um þann titil en mestar mætur hafði ég á Kristjáni enda mun ég hafa heyrt hans fyrst getið og fyrst lært vísur eftir hann svo sem Heimkomuna og TÁRIÐ.
Einhverntíma um þetta leiti fór ég út í Ytri-Hlíð með mömmu og þá heyrði ég Sigurjón og hana tala um tvö skáld til viðbótar, tvo bræður, Pál og Jón Ólafssyni. Mun Sigurjón þá nýlega hafa eignast ljóðabók Jóns og las hann fyrir mömmu kvæðið um Skrúðsbóndann: Líklega hef ég aldrei orðið jafn hrifinn af nokkru kvæði eða upplestri og þá. Er það skjótast af að segja að lengi á eftir vék prestsdóttirin á Hólum varla úr huga mínum og viðlagið: „já satt er það- sorgin er ströng“ hamraði þar án afláts. Í þessum álögum hvarflaði það meira en svo að mér hvort ég mundi ekki geta orðið skáld. Samt vöruðu þeir dagdraumar skemur en ýmsir aðrir því að litlu síðar heyrði ég einhvern fullyrða -eftir óhrekjandi heimildum -að hvorki skáld né smiðir gætu orðið ríkir. Þótti mér sú staðhæfing svo ísjárverð að ég hætti alveg að hugsa til að verða skáld og gerði enda ráð fyrir að úr því að þessu væri þannig háttað hafi forsjónin þegar í upphafi minna vega verndað mig frá svoddan hæfileikum. En ekki dró það samt úr aðdáun minni á skáldunum enda þótt senn bættust fleiri í hópinn þ.á.m. Þorsteinn Erlingsson, sem mér stóð reyndar hálfgerður stuggur af vegna þess hve mikið var um hann jagast. Í huga mínum voru skáldin ekki eiginlega menn heldur eitthvað annað og langtum meira.´´