Skip to Content

Hvernig ADVENIAT REGNUM TUUM varð til


Vorið 1924 fluttum við hjónin frá Winnipeg þar sem við dvöldum okkar fyrstu búskapar ár, til Chicago, og höfðum jafnvel í hyggju að ílendast þar. Þetta fór þó á annan veg því að þegar leið á sumarið dvínaði mjög yfir atvinnu og atvinnuhorfum þar syðra. Sló þá felmstri nokkrum á verkamenn því að flestir spáðu atvinnuleysi næsta vetur. Og með því að við vorum þarna öllum ókunnug og eignirnar ekki slíkar að þær mundu nægja okkur til framfærslu yfir veturinn, því að flestir spáðu atvinnuleysi næsta vetur, ef ekkert félli til með atvinnu, þorðum við ekki að sitjast þar upp, og ákváðum við þess vegna að hverfa aftur til Winnipeg, eða jafnvel vestur til Leslie í Saskatchewan. Við lögðum af stað frá Chicago 23. Október, og átti lestin að leggja af stað kl. 8. um kvöldið. En þar eð íbúð okkar var þegar rudd af innanstokksmunum, yfirgáfum við hana um kl. 2 og eyddum tímanum niður í miðbæ þar til lestin fór. Og hvort það hefur verið fyrirboði eða ekki , þá er það víst, að aldrei á ævi minni hefur mér liðið eins vel og þennan síðdegispart, eftir að við yfirgáfum íbúðina. Ég var eitthvð svo léttur í skapi og áhyggjulaus, að mér var það þá og er það enn með öllu óskiljanlegt.
Segir svo ekki af ferðum okkar fyrr en við komum til Winnipeg undir miðnætti daginn eftir. Gistum við síðan hjá Jónu systur nokkrar nætur. En strax, fyrsta daginn í Winnipeg hitti ég, af tilviljun, séra Rögnvald Pétursson, og færði hann þá í tal við mig, að Unitarahreyfigin ætli að halda aldarafmæli sitt í Boston þá næsta vor með mikilli prakt. Skuli ég nú reyna að semja kantötu í tilefni og stíl við þetta tækifæri og trúi hann ekki öðru en mér muni takast að koma henni á framfæri. Leist mér vel á þessa ráðagerð en kringumstæður mínar til slíkra hluta voru hins vegar ekki glæsilegar.  
Fór ég nú að hitta hollvin minn Björn Pétursson bróður séra Rögnvalds og tjáði honum alla málavöxtu. Lét ég þess þó jafnframt getið að för okkar væri raunar heitið vestur í land til bræðra minna enda væri ég hér atvinnu- og húsnæðislaus. Björn hafði áður  reynst mér með ágætum  og í þetta skipti var hann fljótur að taka ákvörðun. Kvaðst hann hafa tóma íbúð í fjölbýlishúsi sem hann átti og gæti ég fengið hana á leigu upp á greiðslu eftir hentugleikum. Líka bæru nokkrar líkur til að umsjónarmannsstarfið losnaði og skyldi ég sitja fyrir því ef svo færi sem raunar ekki varð og þannig vinna af mér leiguna. En hvað sem öllu liði skyldi ég reyna að varpa öllum áhyggjum fyrir borð og komast [í ró]. Varð ég þessu góða tilboði allshugar feginn og eftir að hafa ráðfært mig við mína nánustu varð það úr að 4. nóvember fluttum við í þessa íbúð sem var nr.12. Corinne apt 602 Agnes st.
Fékk ég mér nú enska biblíu og tók þegar að hnusla úr henni kantötu texta eina grein út þessum stað og aðra úr hinum og tók það mig nærri þrjár vikur. Byrjaði ég svo að semja kantötuna 24. nóv.  Lauk fyrsta uppkasti 27. desember. Tók ég svo þegar að hreinskrifa hana  með smávegis breytingum og fágun. Lauk ég því handriti 16. janúar 1925, daginn áður en Margrét okkar fæddist. Allan þann tíma meðan samningu kantötunnar stóð yfir var ég í samskonar ástandi og þegar ég hafði Strengleika í smíðum. Strax og þetta síðara handrit var tilbúið sendi séra Rögnvaldur það til hátíða-nefndarinnar í Boston. Fékk hann það svar nokkru síðar að tveir prófessorar hafi yfirfarið kantötuna og telji þeir hana sígilt listaverk. Kom mér ekki annað til hugar en að þar væri hún tekin inn í hátíðarprogrammið sem höfuðtónverk hátíðarinnar. En það brást. Hátíðarnefndin lest engin efni hafa á að kosta fjölritun kantötunnar en vildu þó ekki sleppa af handritinu heldur átti það að verða einskonar innleg í skjalsafn þeirra.  
Eftir mikla eftirgangsmuni hundskuðust þeir þó til að skila handritinu aftur. Hins vegar höfðu þeir efni á að kosta fram undir 20 ræðumenn handan úr Evrópu  og víðs vegar að. Eigi að síður olli þó þessi kantata straumhvörfum í lífi mínu. Fjölritaði ég hana þá um haustið og stofnaði síðan utan um hana 60 manna kór. Var hún svo flutt í Fyrstu Lúthersku kirkjunni í Winnipeg 23. febrúar 1926 við frábæran orðstír og aftur 9. mars. Leiddu konsertar þessir til þess að ágætir tónlistarvinir gengust fyrir fjársöfnun í því skyni að styrkja mig til náms og gerði það mér kleift að stunda nám við Konunglega tónlistarskólann í London  um 20 mánaða skeið og útskrifaðist ég þaðan vorið 1928 . Varð þessi menntun m.a. til að opna möguleika fyrir kennslustörfum hér á ættjörðinni og yfirleitt til þess að ég gat þaðan af haft ofan af fyrir mér með tónrænum störfum. Hef ég og stundum hugleitt hvort áhyggjuleysið þá er við yfirgáfum íbúðina okkar í Chicago hafi verið fyrirboði þeirra straumhvarfa sem kantatan hafði í för með sér. Því að víst er um það að hefðu atvikin ekki skipast á þann hátt sem þau gerðu haustið 1924 hefði þessi kantata sennilega aldei orðið til.

Akureyri 5. Nóvember 1952.
Björgvin Guðmundsson


Drupal vefsíða: Emstrur