Skip to Content

Strengleikar, ljóðaflokkur Guðmundar Guðmundssonar skólaskálds

 

                                    I.

Fallin er frá

            fegursta rósin í dalnum! -

Djúpt er þitt dá,

drúpa nú hjá

brostinni brá

            blaktandi ljósin í salnum. 

Mjúk er sem nálín þitt, mjallhrein mín þrá, -

mun ég þig framar að eilífu sjá,

            fegursta rósin í dalnum?

Rjúfi nú strengleikar himinsins há

hvolfþökin blá:

fallin er frá

            fegursta rósin í dalnum! 

 

                                    II.

Gígjan mín góða,

                        guð minna ljóða, 

fingrunum titrandi’ á streng þinn ég styð, - 

            stormarnir kveinandi hljóða.

Hvar á ég griðastað? hvar á ég frið?

- Hvergi’, ef hann finnst ekki ómdjúp þitt við? -

stytt mér við strengjanna klið

stundirnar örlitla bið,

                        gígjan mín góða,

                        guð minna dýrustu ljóða! 

 

                                    III.

Á ég að dvelja hér aleinn og kyr?

ég andvarann spyr, sem þýtur við dyr,

            og kveður grafljóð þín, góða mín,

            við gluggann minn opna’ og víða.

Á ég að bregða mér örskamma stund

í örstuttum blund á drottins míns fund

            og lýsa’ eftir þér og leita þín

            í lundunum Edenshlíða? 

Ég óttast, að löng yrði leitin sú, -

mig líklega vantaði þolgæði’ og trú,

og úr því hún varð ekki vakin nú

            þá verður þess langt að bíða!

- Á „fjöldans veg“ ekki flækist þú,

            fallega ljósið mitt blíða!

            Nei, héðan skal hugurinn líða

            til horfinna, sælli tíða! 

 

                                    IV.

Við sáumst fyrst börn, þar sem bærinn minn

            á brúnunum grænu stendur,

er útsynningarnir klappa’ á kinn,

svo kúrulegur og stormbarinn; -

þar brosa við túnin blómþakin,

þar blikar í fjarska’ á háfjöllin,

            sem rétta til himins hendur. -

Þar komstu með æskunnar árroða’ á kinn

            sem engill af himni sendur!

 

Þar lékum við okkur um laut og hól,

            er ljómaði dögg á stráum

og morguninn nótt í faðmi fól,

en fagurlýsandi brosti sól

            hjá Heklu-tindinum háum,

            frá himninum fagurbláum. 

 

Þar áin mín rennur í bugðum blá

            og brosir við nesið ljósa,-

þar sáum við ljúflinga’, er sátum við hjá,

við sáum í hömrunum ljósin smá;

            þar vildum við vist okkur kjósa, -

            þar vöktum við milli rósa.

 

(Ég man við reistum þar merkis-bæ

            úr mislitum eyrarsteinum,

er víðirinn skalf í vorsins blæ,

sem vermdi fjöllin og eyddi snæ;

            við skreyttum hann grænum greinum,

            sem glitruðu´ af daggperlum hreinum.)

 

 - Sá bær er hruninn og eyrin öll

            af ánni er brotin niður.

Þar átti ég kærastan æskuvöll,

þar átti ég dálitla töfrahöll,

            þar drottnaði fullur friður,

            nú fylla’ ana urðir og skriður!

 

Og nú, er ég hugsa’ um forna tíð,

            í hjarta mér sviða’ ég kenni,

- þar æskan bjó saklaus og ástin var blíð

og aldrei um lífið var nokkurt stríð, -

            þá byrgi ég augu’ og enni.

En einkum mér finnst, ef á þig er minnst,

            sem út í fyrir mér renni! 

 

                                    V.

 

            Hulda mín,

            Hulda mín,

            hættu’ að kveða ljóðin þín!

ekki lengur stiltu strengi, -

            stilt er á engi, ljósið dvín,

Nóttin kemur nístingsköld,

            nú er ekki holt að vaka:

minninganna flýgur fjöld

fram um dimmblá himintjöld,

tælir hjartað og hugann í kvöld

            til að horfa til baka.

 

            (Hulda mín,

            Hulda mín,

            hættu’ að kveða ljóðin þín!

Hví rifjaðrðu’ upp raunir, sem blunda?

            Ég vil æskuna sjá

            með sólhýra brá,

og svo vil ég fara’ að blunda!

            Hulda mín,

            hættu’ að kveða ljóðin þín!

            Í vestrinu kvöldstjarnan vakir og skín, -

ó, hve vildi ég’ að eilífu blunda!)

                                                *)skáletraður texti felldur úr óratóríunni 

 

                                    VI.

Ég var ungur, - dalanna dísin mín,

            þú dróst til þín

alla hjarta míns þrá, með bros á brá

            ég bjó þér hjá!

Í æskunnar sakleysi’ ég söng þér strengleik.

 

Þú varst hreinni öllu, sem augað sá,

            mín eina þrá.

Við blástrauma Rangárþú brostir hljóð, 

            svo blíð og góð.

Ég heyrði þinn söng um sumarkvöld löng

            er sólin skein, -

um dalanna son, um sólskin og von

            þú söngst mér ein.

 

Nú er horfin æskan, ó Hulda mín, -

            og heim til þín

ég aldrei kem framar: hin fagra dó!

            Hvar finn ég ró?

Hvort syrgir þú mig, er sólroða slær

            á salinn þinn?

Æ, siturðu’ er blikar nú blástjarnan skær, 

            með bleika kinn? 

Nú skal söngvum hætt og mín sál er þreytt, -

            ég sé ei neitt

nema hjarta míns þrá, sem hvarf mér frá

            og hneig í dá.

Þú mistir mig: húná mitt hjarta’ og ljóðin! 

 

                                    VII.

 

            Bára, þegi þú!

            Þagna, reginhaf!

            Ljómar eigi af

            ungum degi nú.

            Húmið hljóða mér

            hvíldir bjóði eitt, -

            líði´ ei ljóðið neitt,

            lofn mín góð, frá þér! 

Dimmt er nú í dalnum mínum ljósa,

dauft er þar.

- alstaðar

þyrnar stinga´ á kvistum rauðra rósa. 

            - Undur- milt,

            ofur- stilt

álfabörnin leika´ á gullinstrengi;

            einhver fró

            er mér þó,

ef í blund sá tónn mig sungið fengi. 

 

                                    VIII.

 

Þó stundum grund og giljum frá

            mér glaðlegt ómi strengja-spil

um æskugleði, ástarþrá,

um augu skær og hýr og blá,

það hljóma ómar aðrir þá,

            sem öllu betur heyri’ ég til

            og einmitt ég alt of vel skil!

                        Og hvar sem ég geng

                                    og hvert sem ég fer,

                        þó herði’ ég minn streng,

                                    þeir óma hjá mér;

ég er borinn af ljúf-sárum, titrandi tónum,

            tónum, sem flýja ég vil.

 

IX.

Hló við í austurátt

upprunninn dagur,

leið upp á loftið blátt,

ljúfur og fagur.

Stjörnurar byrgðu brá

bljúgar og hljóðar, -

liljurnar litlu þá

lifnuðu óðar.

Hljómfagra hörpu sló

heiðló í grænum mó. –

Vöknuðu’ af værri ró

vonirnar góðar.

 

Loftblær í laufi þaut,

lék sér í víði, -

angaði’ úr engjalaut

ilmurinn þýði. –

Alein þar undir hól

undum við saman,

undum mót austri’ og sól,

ó, það var gama!

Bundum við tryggða-bönd,

bærðist á vörum önd,

gáfum þar hjarta’ og hönd

hálfrjóð í framan.

 

Gengum við hól af hól

hvíslandi’ í næði;

gaf okkur gjöful sól

gullhlaðin klæði.

Leiddumst við heim í hlað,

hjartansþrá fylgdum.

Pabbi kom okkur að, -

óðar við skildum.

Karlinn í kampinn hló,

kátur á öxl mér sló:

„Fengið var þarna þó

það sem við vildum!“

 

                                    X.

Við gengum, er morgunsins brosti brá

            og blástjarnan þorði’ ekki’ að vaka

á engjarnar, - ég var með orf og ljá,

            hún átti’ að fara’ að raka.

Og saman við gengum, er sólin rann

            og signdi hlíðina’ og bæinn;

ég tala sem fæst um teiginn þann,

            sem til var þá eftir daginn.

 

Og kotið litla varð konungshöll

            og krýnd var hún þar sem drottning;

ég sýndi’ henni kærleiks atlot öll

            og einlæga, djúpa lotning.

Hún snerti heila míns hverja taug

og hjarta míns dýpstu strengi, -

þeim strengleikum ann ég og óðlög þau

            ég elska, - þau hljóma lengi!

 

* *  *

 

Nú fellir himininn frosin tár

            á fölnuð og haustbleik engi,

því hún, sem gekk þar með bjartar brár,

            var burtu þaðan svo lengi.

Þótt endurgrói hver engjarós

            og álftakvak hljómi’ á vorin,

hún kemur þar aldrei, mitt lífsins, ljós,

            sem liðin að gröf var borin!

 

 

                                    XI.

Syngið, strengir, svellið, titrið,

syngið lengi, hljómið snjallt!

Blóm á engi, brosið, glitrið,

blómsveig tengið lífið alt!

            Kystu, sól,

            hríslu á hól,

hlæið, fjólur yndisbláar!

            Hulda smá,

            björt á brá

            barnsins þrá ég vek þér hjá,-

opna grábergs hallir háar!

            Hlustið til,

            hér eg vil

            hefja fjölbreytt strengjaspil!

Undir tekur enginn,

einn ég hræri strenginn! 

 

XII

Nú kveð ég ljóð, sem orti’ ég forðum ungur

  til unnustunnar, hýr í vorsins næði;

það heyrði enginn annar þessi kvæði

  en ég og hún. – Það losnar fjötur þungur,

er sorgin hefur lagt í ljúfling sinn,

  við ljóðin glöðu, er minna’ á sælli daga;

  þau söng ég þegar sat ég úti’ í haga

um sumarkvöld með lambahópinn minn.

-   - Ég söng þau, er dalgolan kyssti kinn

-   á kærustu minni um vormorgna ljósa

-   und ilmbjörkum grænum á litblæjum rósa

með gulllokka flögrandi engilinn minn.

      ég kyssti, - en blómálfar blíðir mín ljóð

í blágresis-toppunum sungu. - -

  Nú flyt ég þér óðinn, mín elskaða þjóð,

með yl vorrar göfugu tungu!

  Í gleði og harmi þú bifaðir barm

á barninu þínu ungu!

 

                                    XIII.

Þegar vorperlan fyrsta vaknar

            af vetrrins þunga dvala,

þegar snjórinn á fjöllunum slaknar,

            og slagæðar grænkandi dala

svo líflega vaxa og leika sér dátt

            um landið í morgunsvala,

þá herði ég aftur minn strengjaslátt,

þá stælist minn kraftur við vorsins mátt,

            við þig, ástin mín, eina ég tala!

 

XIV.

(Ég elska lokkinn þinn ljósa

og ljómandi augu þín,

og brosið, er alt þitt andlit skín,

sem aftanblik hlæjandi úti’ á sæ,

sem árdögg, er tárfellir himininn blár,

í bikarnum blikandi rósa, -

hve björt væri’ og skínandi æfin mín,

ef gylti’ ana alt af þitt glóbjarta hár,

ef á gígjustreng minn feldi’ ég aldrei tár,

og mætti syngja um þig aldur og ár

            og við gengjum um engi,

            og ég strengdi þar strengi

            og ég stilti þá, herti á þeim lengi, lengi

og syngi um þínar björtu brár

og blaktandi hárið þitt ljósa!)

                                    *)skáletraður texti er felldur niður í óratóríunni

 

                                    XV.

Komum, tínum berin blá!

bjart er norðurfjöllum á,

svanir fljúga sunnan yfir heiði.

            Hér er laut og hér er skjól,

            hér er fagurt, - móti sól

gleðidrukkinn feginsfaðm ég breiði.

            Sko, hvar litla lóan þaut

            langt í geiminn frjáls á braut, -

þröstur kveður þarna’ á grænum meiði!

            Ertu’ að syngja um ástvin þinn,

            elsku-litli fuglinn minn,

eru nýir söngvar enn á seiði?

            Þú ert ungunr eins og ég,

            elskar, þráir líkt og ég, –

            förum seinast sama veg,

            syngjum, deyjum, þú og ég, -

litli vin á lágum grænum meiði

langt uppi’ á heiði!

 

                                    XVI.

Hefði’ ég vængi valsins fráa,

vinan kær, ég lyfti þér

upp í loftið ljósa, bláa,

liði yfir tindinn háa, -

            ó, ég skyldi skemta mér!

Mig ég hvíldi á hæsta tindi,

            hvíldi mig við brjóstin þín, -

svifi móti sunnan vindi

seint og hægt í vorsins yndi,

þegar sól í suðri skín.

 

Siglum hægar, siglum hraðar,

            svalan loftsins töfrastraum!

Okkur létta loftið baðar,

langt í burt, að foldar jaðar

            svífum tvö í sælum draum!

Hrærum gígjur, strengi stillum

strengjahljómi loftið fyllum,

            lífgum allt með gleði’ og glaum!

 

Nú finst mér við flogin á braut,

            á veginn til himinsins blessuðu barnanna,

            brosandi, ljóskviku, fallegu strjarnanna,

liðin í ljósvakans skaut!

 

                                    XVII.

Syng þú mér nú ljúflings-lag,

            liðið er á dag!

Allt er röðulgulli gylt,

góða, syngdu ljúft og milt

            við minn strengjaslag!

Syngdu’ um æsku, ást og trygð,

okkar kæru dala-bygð,

            syngdu’ um sólarlag!

 

Sitjum þarna, unum ein

            upp við þennan stein!

Röddin þín er þýð og veik,

þessum hæfir gíugjuleik,

            en svo undurhrein. –

Skyldi læra lögin þín,

litli fuglinn, góða mín,

            þarna’ á grænni grein?

 

                                    XVIII.

            Engin ský

                        yfir rós!

            Upp ég sný,

                        þar er ljós;

augu þín, mín æskurós,

eru ljós!

 

Hvort þú verður lífs eða liðin,

            er loka ég síðast brá,

með blikið og birtuna’ og friðinn

þau blessuð ljós skal ég sjá,

þau skal ég, þau skalég sjá!

 

Og það verður síðast sólskinið mitt,

            hið síðasta varðljós við gröfina mína;

við andlát mitt hættir augað þitt,

            að eilífu mér að skína.

En þá hef ég líka lifað og átt

            það ljúfasta, ástina þína!

Því skulum við lifaog dilla’ okkur dátt

við dynjandi, glymjandi hörpuslátt,

            uns vonirnar deyja og dvína!

 

XIX.

Sko, háa fossinn hvíta,

sér hátt af stalla flýta!

Það er mér ljúft að líta

                 hve leikur hann sér dátt;

í gljúfrum djúpum dynur

og dökkva bergið stynur, -

ég hækka hljóminn, vinur,

                 við hörpu þinna slátt!*

Við geislabogann gljáa,

hinn græna, rauða, bláa,

sér lyftir hríslan háa,

                 í himinloftið blátt.

Hún grær á litlum grænum blett, 

sú grund er rósum fagur sett,

og perlum rignir, rignir þétt

                 í runna smáa niður.

Við göngum þangað, góða mín,

í gulli sólar fossinn skín,-

þar bendir okkur beint til sín,

                 hinn bjarti, ljúfi friður!

*) þessi hluti felldur út í óratóriunni Strengleikum

 

                        XX.

Þú sér hve blærinn vaggar vær

            á vorin hýru’ blómi’ í draumi;

hér sofnar iðu úðinn við

            og elfar nið í þungum straumi.

Við skulum vaka er skín á fjallasalinn.

Við skulum vaka’ og horfa yfir dalinn!

 

Við sjáum heim að höllum þeim

            þar Hulda kendi okkur ljóðin,

og lindin glóeyg rann í ró

            með raunalegu, mjúku hljóðin;

þar minninganna munablómin kæru,

hvern morgun spegla sig í vatni tæru.

 

Við sjónbaugsrönd nú silfurbönd

            á suðurhæðum þokan fléttar;

og hylur túnin heiðarbrún

            og haga fagra, grundir sléttar,

þar fyrst við sáum sól á bernsku-árum

og sumarblómin vættum okkar tárum.

 

Þar man ég ljóst við móður brjóst

            hve milt var alt, - sú tíð er gengin: -

hún hvílir nár með brostnar brár,

            nú býður móðurfaðm mér engin.

En tárin þorna við þinn barminn bjarta,

þú bauðst mér, gafst mér friðinn við þitt hjarta.

 

Í ljúfri kyrð við búum byrgð

            nú bæði ein und lágum greinum,

í djúpum frið við fossins nið

            og flúðar óð hjá dökkum steinum.

Og bak við okkar blundar æskan ljósa,

sem barn, er sefur vært á milli rósa.

 

                        XXI.

Hvítum tindar falda földum,

            fjólur sofa, þegir ló,

nætur dökkum tjalda tjöldum,

            tómlegt er á fossum mó.

            Alt er hulið hreinum snjó,

horfnar bjartar sumarnætur,

hrímgum tárum greinin grætur,

            grætur foss, sem áður hló.

-   Inni hjá þér einni’ er ró!

 

XXII.

Við sitjum í rökkri, - þú raular lágt;

    á rúðurnar tunglsljósið skín,

í ljósaskiftunum hljómar hátt

    og húminu gígjan mín.

Um haustkvöldin harmblíð og fögur,

    svo halla’ ég mér brjósti þér að,

og segi þér fallegar sögur,

og syng um þig, góða mín, bögur,

    þér þykir svo vænt um það! - - -

  þú mátt, haust,

  herða raust!

     Harpan mín kemst hærra en þín,

  hún hljómar endalaust!

 

XXIII.

Sofðu rótt,

er rósa flos

á rúðunum frostið vefur, -

og gægist inn

um gluggann þinn

og guðvef breiðir á ársalinn

máninn á meðan þú sefur!

 

Svo hugljúf og vær er hvíldin þín:

   þú hvílir í draumi’ á rósum

með hálfluktum augum elskan mín,

   svo ástsæl hjá draum-myndum ljósum.

- Þú baðar sem barn í rósum.

 

Og gegnum blund

þú heyrir hljóm

frá hörpu minni gjalla,

þá kætist lund

   við léttan óm

og lífsgleðin fyllir þig alla;

þér heyrist síð

um sumartíð

söngur í hlíðum fjalla.

- Af rúðunum frostrósir falla. –

Og ljósbúinn sér þú hvar ljúflinga her

líður um iðgræna hjalla, -

með sumar-boð

við sólarroð

í söngvum þeir á þig kalla.

- Að brjósti þér hægt ég mér halla! –

 

(Sofðu rótt,

er rósa flos

á rúðunum frostið vefur!

Sælli nótt,

söngva klið,

sælli frið,

að eilífu aldrei þú hefur!

Með skínandi kranz

þig krýni’ ég í dans, -

ó, komum þá skjótt,

það er töfrandi nótt!

Ég er drottinn sá

er þitt draumland á, -

ég drotta þar meðan þú sefur!) *

*) fellt úr óratóríunni

 

XXIV.

Sumar hló um velli, voga

   víkur, nes og tinda bláa;

   Akrafjallið, Esjanháa

eins og stóðu í björtum loga . . .

Hóratzbað ég heilan sitja,

  Hómerfleygði’ og „stjörnufræði“:

æskustöðva vildi’ ég vitja,

   vera þar í sumarnæði,

ganga frjáls um græna bala,

   gleyma lestri’ og skólatíð,

  yrkja’ um sól og sund og hlíð,

syngja’ um ást, - við hana tala,

   sem ég unni ár og síð,

yndið minna ljósu dala!

 

Út úr „langa lofti“ þaut ég,

lokum burt frá hurðum skaut ég,

   kvaddi hvorki kóng né prest,

“ Upp til hennar, upp til fjalla!

óma vorsins heyrði’ ég gjalla.

   Út ég fór og hljóp á hest.

 

 

                        XXV.

   Man ég þá

   mjúku þrá:

   meyna’ að fá

   heima’ að sjá!

Sem ég væri björtum borinn

   blæjum morgunroðans á,

léttur, frjáls sem lóa’ á vorin

   leið ég yfir dal og gil,

   grund og hæðir, hennar til,

(taldi’ ei fáksins fráa sporin.

 

Mér finst enn sem innra brenni

   einhver kvikur logi’ í mér,

finst ég einhvers óljóst kenni,

er ég til þess huga renni,

   sem þó löngu liðið er;

dropar hnappast út úr einni,

   unaðsmynd að sjónum ber.

Það er myndin mín – af henni!

 

Ljúfu dagar, liðnu dagar,

   lyfti-þrá í ungum barm,

   réttu þreyttum þróttkan arm

þegar máttarskortur bagar!

 

   Besti eigin burði’ og þrótt,

beri ljúfust minning eigi,

yfir kalda klakavegi,

   komdu blessuð, hinsta nótt!

Lifa vil ég eftir eigi

   ástum vakinn, dáinn þrótt! *)

                                    *)texti innan sviga felldur úr söngdrápunni

 

                        XXVI

 

Kvöldsett var nokkuð, er kom ég heim, -

   hjá kvíunum ærnar lágu;

frá bænum í logininu lagði’ upp eim

   í loftsala tjöldin bláu. - -

Hestinn minn batt ég við hestastein

   og heilsaði pabba mínum,-

hann brosti’, en ég sá að sorgin skein

svo sárþung og djúp og svo hrein

   í augunum dökkum og ennis-línum.

 

Tvo fallega jóa ég söðlaða sá

   þar saman í tröðunum standa. –

Mér varð litið föður minn aftur á, -

   það var eins og hann kæmist í vanda.

- „Er nokkur á ferð hérna, faðir minn?“

- - Fyrst var hann dapur og hljóður:

„ Já svo er það, sonur minn, góður, -

ég sótti í morgun læknirinn.“

-   „Hvað er að?“ – Þá tárgaðist öldungs bráin:

„Hún unnusta þín er – dáin!“

-   - -  Ég greip í steinvegg að styja mig,

sú stunga var sár. – Hún var dáin.

 

                        XXVII.

Ég starði’ á línið hvítt og hreint,

   sem hjúpaði meyna dána,

   á fölnuðu, breyttu brána, -

ég gleymi því, gleymi því seint.

 

Af helstríði afskræmt var andlitið ljóst

hin indælu, hvelfdu og mjallhvítu brjóst

   svo kaldstöm og sigin saman.

En glóbjarta hárið í lokkum lá,

það liðaði’ ég, greiddi það enninu frá,

  ó, hvað hún var föl í framan!

 

En hvað mér var þungt og hvað mér brá,

   það hvorki ég veit né segi,

því segi ég engum, engum frá

   að æfinnar hinzta degi!

Hún var breytt, en ástin mín var ekki breytt,

   því undir þeim dauðfölvans hjúpi

lá fegurðin bjarta með skínandi skart,

   sem skrautperla í hafsins djúpi.

Og ef til vill sá ég fyrst einitt þá

  í yndisleik fylstum skína,

frá liðnum stundum við fegins fund

   þá fegurstu stjörnuna mína.

 

XXVIII.

Lágt er það, smátt er það, kumblið hið kalda,

   kumblið, sem geymir nú þín látnu bein;

aftansöng dalanna dísir þar halda

   daprar við ofurlítinn bautastein.

   Sofðu sætt og rótt,

   sofðu, góða nótt!

þangað til sofna’ ég þú sefur ein!

 

En þótt ég sofni og aldrei ég vakni

   eins og ég veit að liggur fyrir mér,

já, þó að enginn, nei enginn mín sakni,

   ánægður ég sofna rótt að brjósti þér.

   Sú er sælust trú:

   sömu leið og þú,

hjá þér að bera mín bein ég fer.

 

Þangað til strengirnir hátt skulu hljóma,

   hljóma um liðna daga, vinan mín,

þangað til geng ég í grafkumblið tóma,

   gígjan skal harmi þrungin minnast þín.

   Einn ég una skal

   innst í mínum dal, -

skuggarnir lengjast og dagur dvín!

 

                        XXIX

Þér sýnið mér opin himinsins hlið,

um himneskan fögnuð þér talið mig við

   að eilífu, í himins höllum;

þér boðið mér ástvina endurfund

í Edens skínandi pálmalund, -

   það boðið þér, boðið þér öllum!

 

Að verða þar sælli en vorum við hér,

það veit ég alls ekki hvort mögulegt er,

   en sælli ég vil ekki verða!

 - þótt alt hafi’ ég misst og búi við böl.

já, beiskustu, sárustu dýpstu kvöl,

   ég fer minna eigin ferða.

 

Nú er ég svo þreyttur, að eilífa ró,

já, eilífa blunidnn í grafarþró

   hinn draumlausa, djúpa mér kýs ég.

Ég finn ekki sæluna’ í sóllöndum þeim

ef sorgþrungna minning frá þessum heim

   ég geymi’ ekki’, úr gröf ef rís ég.

 

Ég þekkti ekki, röðull, þinn unað og yl

ef alls ekki nótt væri’ og kuldi til. –

   og svo er um sorgir og gleði.

Sú sæla var fullnóg, sem fékk ég hér, -

hvers framar á ég þá að óska mér?

   Jú, algleymi’ á banabeði!

 

Ég verð feginn, að þurfa’ ekki’ að finna til,

og feginn, að lífsins tálarspil

   ég þarf ekki’ að leika lengur.

Að burðast með minning um eilíf ár,

um æfinnar vonbrigð, söknuð og tár,

   mér finnst ekki happafengur.

 

Nú, „ástvina samfundi’!“ – En er það nú víst

ef upp úr gröfinni, kæra, þú ríst,

   að samdvöl um eilífð við eigum,

já, hvort við hinn sama höldum veg,

því hundraðfalt betri varst þú en ég?

   En saman við sofamegum!

 

 

                        XXX

Ljósið er dáið og dimm er nótt,

            því dagur að viði’ er genginn;

um gluggann minn loftsvalinn líður hljótt, -

            ég leik ekki’ um sinn á strenginn.

            - Í einveru truflar mig enginn.

 

En ætti ég gullstrengi glaður þá

            ég gígjuna lengur stilti

og hraðar skyldi’ ég og höfgar slá

ef hærri tónum ég mætti ná

            svo hljómurinn húsið fylti.

 

Þeir strengir og hljómur sá hæfði þér

            sem himininn gæti rofið,

sem þrunginn í hjarta hvert þrengdi sér

með þína minning. - Þá fyndist mér,

            að sætt gæti’ ég loksins sofið.

 

Ylji liljurnar eldskær sól,

            yfir þér, ljúfan góða!

Við þitt leiði’ á ég veldisstól,

vel mér í böli þar heldur skjól,

en gullskreyttum höllum hjá höfðingjum þjóða!

- Ég heiti’ á þig, guð minna ljóða,

gígjan mín góða,

guð minna dýrustu ljóða!*)

                                    *)Skáletraður texti felldur úr kantötunni


http://hljomblik.is/node/674/



Drupal vefsíða: Emstrur