Sjá liðnar aldir líða hjá
Flytjendur í tóndæminu: Söngsveitin Fílharmónía og Sinfóníuhljómsveit Íslands
undir stjórn Páls Pampikler Pálssonar.
Hljómsveitarútsetning Hallgrímur Helgason.
IV.
Kór með Tenór sóló
1.
Sjá liðnar aldir líða hjá
og ljóma slá
á vellina við Öxará,
á hamraþil,
á gjár og gil.
Hér hefir steinninn mannamál
og moldin sál.
Hér hafa árin rúnir rist
og spekingar
og spámenn gist.
Hér háði þjóðin
þing sitt fyrst.
2.
Hylla skal um eilífð alla
andann forna konungborna.
Minning þeirra, er afrek unnu,
yljar þeim, sem verkin skilja.
Þeir, sem fyrstir löngum lýstu,
lyftu okkar þjóðargiftu.
Þeirra tign skal fólkið fagna,
festa trygð við þeirra bygðir*).
Þessum völlum unna allar
ættir lands og hollu vættir.
Hérna bundust feður fornir
fyr á dögum ríkislögum.
Þessi ber og heiðnu hörgar
heyrðu goðanna kristni boða.
Þennan völl og hamrahallir
hefir þjóðin vígt með blóði.
Liðinna alda líf og veldi
ljóma af þingum Íslendinga.
Horfnar stundir hugann binda
heiðnum seið og kristnum eiðum.
Þúsund ára lögmál lýsa
landið frjálst til yztu stranda.
Lýðir falla, en Lögberg gyllir
landsins saga um alla daga.
3.
Sjá liðnar aldir líða hjá
og lýði taka nýjan sið.
Þeir krjúpa og biðja um kristinn frið,
um kristinn frið,
við Öxará.
Heyr, klukkur hringja.
Heyr, klerkar syngja:
Boðorð guðs skulu á bergið rist.
Þór er fallinn. Þór er fallinn.
Þóðin tilbiður krist.
*gömul stafsetning látin halda sér