Skip to Content

HVERNIG STRENGLEIKAR URÐU TIL

Fyrstu kynni mín af Strengleikum Guðmundar Guðmundssonar urðu vorið 1906. Var þá talsvert um þennan ljóðaflokk rætt í mínu nágrenni og af flestum sem sannsögulegan. Hreifst ég mjög af ljóðaflokki þessum og að líkindum meira en ella sökum þess að einmitt um sama leyti andaðist á næsta bæ við mig, ung kona ný gift og vakti lát hennar almenna samúð í nágrenninu. Nokkuð er það að fráfall hennar og Strengleikar tvinnuðust á undarlegan hátt saman í huga mínum.-

En nú víkur sögunni yfir 7-8 ára tímabil og er ég þá fluttur til Winnipeg í Kanada. Veturinn 1913 kynntist ég þar þeim manni sem ég tel mig eiga mest að þakka allra einstakinga á tónrænum vettvangi. Hann hét fullu nafni Davíð Jónas Jónasson og var Húnvetningur að ætt. Hann var múrari að iðn en afburða tónelskur og smekkvís. Ég var þá framandi  og umkomulítill verkamaður og þótti að sjálfsögðu til smárra hluta borinn sem tónlistarmaður. En af hendingu sá Davíð lag eftir mig og varð til þess að hann hændi mig að heimili sínu, lánaði mér oratóríur og aðrar tónbækur, lék fyrir mig kór- og aðrar söngplötur á hljómvélina sína, taldi í mig kjark og var jafnan boðinn og búinn til að veita rugli mínu áheyrn og gera við það athugasemdir svo langt sem þekking hans náði. Var hann söngstjóri við eina kirkjuna í Winnipeg um margra ára skeið og mjög starfandi í tónlistarlífi Winnipeg- Íslendinga  og all lengi meðlimur Oratóríu-kórsins í Winnipeg.

Uppúr nýári 1914 sýndi ég Davíð nýsamið kórlag við biblíutexta. Veitti hann því sérstaka athygli og lét  þau orð falla að ekki mundi líða á löngu þar til ég semdi stórverk og kveiktu þessi ummæli hans óslökkvandi þrá hjá mér til að fást við stærri viðfangsefni.

En nú verður að nefna annan mann til sögunnar. Hann hét Magnús G. Magnússon, ættaður (af Seyðisfirði ) af Eyrarbakka en fluttist vestur um haf af Seyðisfirði. Hafði hann stundað tónfræðinám svo árum skipti  og stóð mér langtum framar í tónvísindum. Þá fékkst hann og talsvert við  tónsmíðar um þessar mundir. Ég kynntist honum stuttu eftir  að ég kom vestur um haf og af því að við áttum sameiginleg áhugamál og vorum auk þess jafnaldrar urðum við samrýmdir og heimsóttum hvor annan.

Nú var það stutt eftir framangreinda heimsókn til Davíðs að Magnús bar að garði og barst þá m.a. í tal hvort til mundi vera á Íslensku tilbærilegur oratóríutexti eða textar og kvað Magnús það þá helst mundu vera Strengleikar Guðmundar. Ég hafði að vísu aldrei gleymt Strengleikum en samt ekki skoðað þá alvarlega í þessu ljósi. Spurði ég nú Magnús hvort hann hafi hugsað sér að taka þá til meðferðar þannig lagað en hann tók því fjarri “ nema þá stef og stef ” sagði hann. En hins vegar hvatti hann mig mjög til að reyna að gera við þá oratóríu . Ég gaf mig lítt að því en mun þó hafa hugsað mitt í leynum hefi ég og aldrei verið orðmargur um óunnin verk. Þennan vetur hafði ég líka um nóg að hugsa stúderaði þá bæði píanó og tónfræði með það í huga að ganga undir próf þá um vorðið sem ég og gerði ........

Og svo kom sumarið með strit og stríð sem snerist þó raunar mest um árangurslitlar atvinnuleitir. Loks skall svo styrjöldin á og skaut m.a. slagbrandi fyrir allar mínar vonir um frekara tónlistarnám a.m.k. á næstunni. Og svo leið síðari hluti ársins að styrjaldarblikan sortnaði án afláts og snemmendis 1915 varð það með hverjum degi augljósara að fyrir mig og mína líka voru aðeins tveir kostir fyrir höndum og hvorugur góður að mér fannst. Annar: að ganga í herinn og hinn: að hrekjast [út á] land og tók ég síðari kostinn ásamt bræðrum mínum og Mömmu en við höfðum haldið hús saman í Winnipeg síðan vorið 1912.

Ekki voru þessi búferli okkar samt fast ákveðin fyrri en undir vor. En þó með ólíkindum kunni að virðast tóku Strengleikar að sækja á mig fyrir alvöru um svipað

leyti. Af vissum ástæðum sló ég því samt á frest að vera mér úti um eintak af þeim þart til daginn sem við fluttum, 26. apríl. Átti ég þá 2 dollara afgangs fargjaldi  og keypti fyrir þá eintak af Strengleikum  og nótnapappír fyrir afganginn. Byggðin sem við fluttum í  mun um þetta leyti hafa verið fjölmennasta Íslendingabyggð vestan hafs. Nefndist hún í daglegu tali Vatnabyggð og liggur tæpar 400 mílur norðvestur af Winnipeg.

Þarna leigðu bræður mínir landblett með húskofa og fjósræfli af Bjarna nokkrum Þórðarsyni tæpar  3 mílur enskar suðaustur af smáþorpinu Leslie. Húsið var aðeins tvö herbergi og lítill skúr til hliðar, notaður sem eldhús. Hin voru: Súðarherbergi og annað fyrir neðan jafn stórt að ummáli , var það allt í senn sefnherbergi, setustofa, boroðstofa og skrifstofa. Því að þar skrifaði ég uppkastið af Strengleikum og í megin atriðum þá Strengleika sem hér eru skráðir. Í þessum nýja dvalarstað beið mín þegar erfið vinna, brunna- og kjallaragröftur, viðarhögg og fleira og síðar í heyskap, hveitisláttur og þresking.

 En nú var ég búinn  að fá Strengleika svo gersamlega á heilann að ég stúderaði ljóðaflokkinn vakandi og sofandi að heita mátti og smámsaman formuðust í huga mínum ákveðin þátta og númeraskil svo að form tónverksins var algerlega komið á fastan kjöl í júlí lok. Byrjaði ég svo  sunnudaginn 8. ágúst á forspili að verkinu en eyðilagði það raunar ári síðar og samdi þá það sem hér er í handriti. Fyrsta ákveðin tónhendingin að þessu verki varð til í Winnipeg skömmu áður en ég flutti til Leslie er það upphafið af númer 13. Önnur, við upphafið að nr. 22, þar sem ég vann að kjarrhöggi vestur í Vatnabyggð og sú þriðja, upphafið að nr. 26, litlu áður en ég byrjaði á verkinu. En tvísólóna nr. 11 byggði ég að nokkru upp úr tónhendingum frá vorinu 1906.

Ég var svo heppinn að meginið af haustvinnunni, sem stóð yfir í um þrjá mánuði, var svo nálægt heimili okkar að ég gat notað allar meiri háttar frátafir til að skreppa heim og grípa í Strengleika. Varð það svo notadrjúgt að í þreskingarlok var ég kominn aftur í nr. 9. Tók ég þá við heimilisstörfum og hagaði þeim að öllu leiti þannig að frístundirnar yrðu sem drýgstar og lauk ég fyrsta þætti fyrir áramót.

Byrjaði ég svo á öðrum þætti á nýársdag 1916 og verkinu þokaði áfram jafnt og þétt. Tvisvar sinnum missti ég samt þráðinn. Í fyrra skyptið við síðari þáttaskiptin í kórnum nr 29. Flaug síðasti kaflinn í huga mér er ég var á heimleið úr kaupstað (frá Leslie) en jafnskjótt og ég kom heim varð ég fyrir einhverjum óvæntum truflunum og féllu niður við það tvær fyrstu hendingarnar. Beið ég þess nokkra daga að þær endurfæddust og reyndi jafnframt af öllum mætti að rifja þær upp en árangurslaust þar til þeim skaut upp aftur jafn fyrirvaralaust og í fyrstu. Þá varð nokkurt hlé á undan nr.32. og mun það hafa stafað af því að ég hafði lengi haft aðra tónhendingu í huga varðandi þennan dúett en hvarf frá að nota hana þegar til átti að taka og tók hana síðar upp í Hljómblik nr. 30. Þegar um heildar- eða samhengisverk er að ræða má með sanni segja að hvert sérstakt númer leggi grundvöll að því næsta. Þess vegna gengur samning heildarverka jafnaðarlega miklu greiðara en samning sérstakra einstaklinga. Þarna hljóp því snurða á þráðinn og allt virtist komið í baklás. Fylltist ég nú ugg og örvæntingu um stund. En eftir nokkra daga tók að rofa til aftur og ég náði þræðinum að nýju. Hélt ég honum upp frá því  nema hvað ígripin urðu strjálli eftir að vorannir hófust. Að vísu vann ég enn þá í nágrenninu en gat ekki verið heima nema um helgar. Kom þetta einkum niður á þrem síðustu númerunum, enda urðu þau öll þunn og veigalítil og felldi ég þau öll niður síðar. Ekki man ég dagsetningu síðari þáttaskiptanna eða hvenær verkinu lauk. Mun ég hafa lokið öðrum þætti nálægt mánaðarmótum mars og apríl en verkinu öllu seint í maí. Nokkru síðar reif ég svo forspilið burt og samdi annað sem að framan greinir. Er þar með lokið sögu þessa fyrsta uppkasts að Strengleikum og minnir mig að handritið hlypi upp á 280 blaðsíður. Er það sennilega enn til í vörslu Þorsteins bróður míns.

[Handrit þetta sendi Hulda, dóttir Þorsteins, okkur um árið 2004 eða 2005. Hafði það legið uppi á háalofti í húsinu þar sem hún bjó í Regina Kanada. innsk Fríðu Andersen, barnabarns BG.]

Veturinn eftir 1917, skrapp ég til Winnipeg og tók handritið með mér til að sýna það Davíð vini  mínum, og hann brást mér ekki fremur venju. Stefndi hann saman vel tónlæsu fólki og söng það alla kórana, dúettana og nokkuð af sólóum og lét það hið besta af verkinu. En af mér er það að segja að ég var þegar orðinn óánægður með ýmislegt einkum þó undirspilið og enda ýmsa aðra tilhögun. Ég tók mig því til strax og ég kom heim aftur og byrjaði að umskrifa allt verkið. En að undirspilinu undanteknu urðu breytingar þó smávægilegar miðað við lengd verksins. Urðu þær í höfuðdráttum þessar: Nr. 4 samið að nýju og nr 6. að fyrsta kaflanum undanteknum. Nr 27., miðkaflinn stílfærður talsvert en grunnhendingar annars óbreyttar og síðasti kórinn endursaminn nema fyrsti kaflinn. Allar aðrar grunnlínur verksins héldu sér og útfærsla þeirra víðast hvar.

Með þetta handrit flæktist ég svo í 15 ár þar til í janúar 1932 að ég hóf að endurskrifa verkið í þriðja sinn og til fullnustu svo langt sem það nær. Og enda þótt breytingar megi teljast hverfandi umfram það sem hér verður greint þá fágaði ég undirspil og enda raddfærslu all víða. Til dæmis voru einsöngva og tvísöngva hlutverkin í kórnum, nr. 18 og nr. 29 ætluð radddeildum í báðum hinum handritunum og þessir kórar þar einungis fjórraddaðir. Er þetta stórvægilegasta fágunin frá eldri handritunum og má raunar teljast til breytinga. En höfuðbreytingar eru þessar:

Síðari hlutinn af nr 4. endursaminn, nr. 7 samið að nýju. Var það smálag fyrir blandaðan kór í eldri handritunum. Þá skipti ég algerlega um nr. 40 og 41, bæði texta og tóna. Er textinn nr. 40 tekinn úr ljóðmælum Guðmundar (Reykjavík 1917, bls. 283, 1, 3 og 4 v. og nr. 41 úr sömu bók, bls. 133, síðasta erindi.. Þóttu mér þessi erindi falla betur inn í verkið en nokkuð úr Strengleikum, en hins vegar engin eftirsjá að þessum númerum eldri handritanna, hvorki ljóðum né lögum. Þar voru textarnir: Við 40 “Þér sýnið mér opin himinsins hlið”, (sópran sóló) en við nr. 41” Nú er ég svo þreyttur-“ (tenór sóló). Í stað karlakórsins nr. 38 endurhljóms frá upphafskór verksins, var í eldri handritunum Sorgargöngulag, en þó raunar sitt í hvoru og að sjálfsögðu útsett fyrir hljóðfæri.

Er þá sögu Strengleika lokið að vísu. En til frekari heimildar skal þess getið að nr. 40 er samið 4. sept. 1932 og nr. 41 8unda sama mánaðar og er það yngsta númerið í Strengleikum en elst er nr. 2 “ Fallin er frá” samið um og fyrir miðjan ágúst 1915 og hefur þeim kór aldrei verið breytt nema kannski undirspili lítilsháttar. Þessu þriðja handriti Strengleika var lokið 12. september 1932.

Nú hef ég að mestu búið verkið undir prentun og er það fjórða umskriftin. En breytingar frá þessu handriti eru svo smávægilegar að varla er orðum eyðandi að þeim, nema hvað þar er aftur vikið að fyrri handritum hvað snertir nr. 10  og 11 og algerlega um þau skipt þannig: að nr. 10 er þar sami kór og “Nú skal söngvum hætt” undir textanum: “Ég var ungur dalanna dísin mín” en tvísólóin “ Þú varst hreinni öllu” tekur aftur sitt sæti nr. 11. óbreytt frá fyrstu.

Að lokum þetta: Þegar ég nú, í huga og hjarta, ber saman fyrsta uppkast af Strengleikum og það handrit sem ætlað er til prentunar, verða niðurstöður á þá leið að heildarsvipur verksins hefur engum breytingum tekið. En það hefir fágast mikið og síðasti þáttur sérstaklega orðið mun heilsteyptari og þar með öðlast þann dramatíska þunga, sem mjög skorti á í fyrsta og öðru uppkasti, enda er um mestar breytingar að ræða, bæði í tónum og þó sérstaklega í formi. Grafarsenan.

Akureyri 7. janúar 1948

Björgvin Guðmundsson


Drupal vefsíða: Emstrur