Fyrr var landið fjötrað hlekkjum
Flytjendur í tóndæminu: Söngsveitin Fílharmónía og Sinfóníuhljómsveit Íslands
undir stjórn Páls Pampikler Pálssonar.
Hljómsveitarútsetning Hallgrímur Helgason.
VI.
Tenór sóló – karlakór
Fyrr var landið fjötrað hlekkjum,
fátt um vopn og hrausta drengi.
Þjóðhetjur af þingsins bekkjum
þurftu að berjast heitt og lengi.
Dyrfsku þurfti að koma og krefja
konunga um lausn og bætur.
Frelsismerkið fyrstir hefja
fullhugar, sem þjóðin grætur.
Liðið óx, en lítið raknar
lengi úr okkar þungu fjötrum.
Það er fyrst er þjóðin vaknar,
þjáð og smáð og vafin tötrum.
Frelsið hertók hugi unga.
Hörmum sínum gleymir enginn.
Eftir mikla þraut og þunga
þá var loksins sigur fenginn.
kór
Alla þá, sem voru að verki,
virðir þjóðin alla daga.
Undir þeirra mikla merki
mótast okkar líf og saga.
Þeir, sem réttu horfi halda,
hljóta sömu þakkargjöldin,
varpa ljóma um aldir alda
yfir heilög sagnaspjöldin.