Skip to Content

Barna- og kvennakórar

 

Þessi athugasemd fylgir SJÖTÍU OG SJÖ SÖNGVAR handa barna- og kvennakórum.

 

FYLGIMÁL

Nú til margra ára hefur verið tilfinnanlegur skortur á aðgengilegum og nægum söngvakosti handa barna- og kvennakórum og hefur það eðlilega vakið sérstaka athygli söngkennara í barnaskólum. Hefi ég orðið þessa mikið var af bréfum, sem mér hafa árlega borist, fleir og færri, frá kennurum viðs vegar um land, með beiðnum um raddsetningar við barna hæfi. Með það í huga, og þó einkum eigin þarfir hér við skólann, hefi ég raddsett fjölda af lögum, og þó einkum seilst til þeirra, sem mér virtust börnum best að skapi, enda hafa skólakórarnir hér, á undanförum árum, sungið flest þau lög sem þetta hefti hefur inni að halda.

 

Nokkrum sinnum hefi ég leitað fyrir mér við Fræðslumálaráð um útgáfumöguleika á hefti slíku sem þessu, en árangurslaust, þar til núverandi fræðslumálastjóri, hr. Helgi Elíasson hefur tekið ákveðna og áhugasama afstöðu til málsins og þessarar útgáfu fyrir hönd skólanna. Og jafnframt hefur bókaútgafan Norðri tekið að sér útgáfuna. Er ég báðum þessum aðilum mjög þakklátur fyrir áhuga þeirra á þeim mikilvægu málefnum, sem hér liggja til grundvallar. Vænti ég og, að hefti þetta bæti úr mestu þörfinni í þeirra augum, sem til hennar hafa fundið. Og mætti það líka opna augu hinna fyrir nauðsyn vaxandi almennrar tónmenningar í landinu, þá er tilganginum að fullu náð.

Akureyri 18. maí 1945.

Björgvin Guðmundsson.

 

Aths.) Vegna þess, að F-lykillinn inniheldur þá sætisskipan, sem kontraaltinn hvílir á, betur en G-lykillinn, hefi ég notað hann og er það hliðstætt við notkun G-lykilsins í karlakórlögum, en auðvitað er hið raunverulega svið raddarinnar áttund hærra en hún er skrifuð á þennan hátt. Í þremur lögum hefi ég samt notað G-lykilinn fyrir neðstu rödd vegna þess, að nauðsyn bar til að flytja milliröddina í neðri lykilinn á vissum pörtum allrta laganna.

Höf.

 



Drupal vefsíða: Emstrur