Skip to Content

Örlagagátan, söguþráður

ÖRLAGAGÁTAN

(skýring tekin úr söngskrá)

 

Efni þessarar söngdrápu er sótt í þátt Þiðranda og Þórhalls, sem er einn af hinum 40 Íslendingaþáttum og er víg Þiðranda Síðu-Hallssonar að sjálfsögðu hin dramatíska þungamiðja verksins. Annars tvinnast inn í það aðdragandi og eftirköst þess sorglega atburðar.

 

Verkið hefst á forspili. Fyrsti kórinn er haustsöngur í tímanlegum og táknrænum skilningi en gæti jafnframt táknað dulmál örlaganna er oft þykir einkenna andrúmsloftið, þegar vofveiflegir atburðir eru í aðsigi. Nú hafði Síðu-Hallur áformað að hafa inni boð mikið til heiðurs Þiðranda syni sínum, sem þá var væntanlegur heim frá útlöndum, hvar hann hafði hlotið frægð og frama, enda þótti hann afbragð ungra manna. En tryggðarvinur Halls og gestur hans löngum, Þórhallur spámaður,að Hörgslandi á Síðu, lét sér fátt um finnast boð þetta og vildi þar hvergi nærri koma, þó aldrei þessu vanur. Er því Fyrri þáttur að mestu leyti átök milli Síðu-Halls og fólks hans annars vegar en Þórhalls hins vegar, um að fá Þórhall til að sitja veisluna og lýkur með fullum sigri þeirra Halls.

 

Síðari þátturinn er að nokkru leyti þrískiptur. Hann hefst fyrsta veislukvöldið. Stórhríð er á og margt boðsmanna ókomnið til veislunnar. Samt er þar glatt á hjalla og vel veitt en Þórhallur bannar að nokkur yfirgefi skálann um nóttina.

Þá hefst næturþátturinn með nr. 17. Menn taka á sig náðir, og nokkru síðar er kvatt dyra en enginn þorir að gegna. Þetta stenst Þiðrandi ekki , hyggur að fleira boðsfólk sé komið og gengur til dyra. Ráðast þá að honum níu nornir dökkleitar með þeim árangri að hann liggur þar eftir helsærður. Níu dísir bjartleitar vildu koma Þiðranda til hjálpar en urðu seint fyrir eins og oft hefur vilja brenna við. Þessi þáttur endar svo með nr. 24, á dauða Þiðranda morguninn eftir.

 

Þá hefst lokaþátturinn um það leyti sem Síðu-Hallur hefur ákveðið að flytja frá Hofi til Þvottár vegna óyndis eftir þennan hryggilega atburð. Spyr nú Hallur vin sinn Þórhall hvað hann hyggi um afdrif Þiðranda. En Þórhallur getur til að siðaskipti muni í nánd og sé hinn nýi siður betri, enda muni Hallur og ættingjar hans aðhyllast hann. Jafnframt lætur hann þess getið að gamli tíminn vilji hafa sitt og það helst ekkert minna en besta mann ættarinnar, enda sé honum það varla láandi. Nú bregður líka svo við að tvær hinna björtu, góðu dísa koma á vettvang og strika svo, í síðasta kórnum, með þeim rökum að glæsi- og göfugmennska hljóti ávalt að vera lífæð mannkynsins, hvernig sem skipast kunni um þeirra tímanlegu örlög. Því, það lífræna séódauðlegt, en hið helræna feigt.

 

Þetta er að vísu stutt skýring en mætti hún verða hlustendum til nokkurs skilningsauka umfram það sem verkið skýrir sig sjálft, þá er tilganginum náð.

 

Björgvin Guðmundsson.



Drupal vefsíða: Emstrur