Flytjendur í tóndæminu: Söngsveitin Fílharmónía og Sinfóníuhljómsveit Íslands
undir stjórn Páls Pampikler Pálssonar. Hljómsveitarútsetning Hallgrímur Helgason.   

 
 
   I.
Kór með tenór og sópran sóló
 
Þú mikli, eilífi andi,
            sem í öllu og alstaðar býrð,
þinn er mátturinn, þitt er valdið,
            þín er öll heimsins dýrð.
Þú ríktir frá upphafi alda,
            ert allra skapari og skjól,
horfir um heima alla
            hulinn af myrkri og sól.
Frá því hin fyrsta móðir
            fæddi sinn fyrsta son,
varst þú í meðvitund manna
            mannkynsins líf og von.
Alt lifandi lofsyngur þig,
            hvert barn, hvert blóm,
þótt enginn skynji né skilji
            þinn skapandi leyndardóm.
Við altari kristinnar kirkju,
            við blótstall hins heiðna hofs
er elskað, óskað og sungið
            þér einum til lofs,
því dýpst í djúpi sálar
            er hugsunin helguð þér.
Þú gefur veikum vilja
            og vit til að óska sér.
Hver bæn er bergmál af einni
            tilfinningu og trú.
Alt lofsyngur lífið,
            og lífið er þú,
mikli, eilífi andi,
            sem í öll og alstaðar býrð.
Þinn er mátturinn, þitt er ríkið,
            þín er öll heimsins dýrð.