Hvernig FRIÐUR Á JÖRÐU varð til.
HVERNIG FRIÐUR Á JÖRÐU VARÐ TIL
Þá er ég hafði lokið við fyrsta uppkastið af Strengleikum, tók ég bráðlega að svipast eftir öðrum óratóríutexta, og varð þá fyrir mér ljóðaflokkurinn, Friður á Jörðu, eftir Guðmund Guðmundsson. Varð ég mér úti um hann síðsumars 1916 og viðhafði sömu aðferð og við Strengleika áður, að rannsaka textann sem vandlegast og brjóta hann til mergjar í þessu skyni. En þar var úr meiru að velja en áður úr Strengleikum, eða öllu heldur, meira úr að fella.
Varð ég því all margbentur í valinu, og varla kominn á fast form þegar ég byrjaði á verkinu, 2. janúar 1917, enda varð samning þessa verks, frá fyrsta til síðasta, með allt öðrum hætti en Strengleika. Ég mun hafa samið forspil, - er ég raunar eyðilagði síðar, - og þrjú númer að auk í fyrstu lotu. En í febrúar skrapp ég til Winnipeg og tók mér síðan fyrir hendur að umskrifa alla Strengleika og gaf mig þeim algerlega á vald að nýju og lauk því ekki fyrr en að afhallandi sumri, enda vann ég við smíðar tíu til tólf stundir á dag, svo að frístundirnar voru teljandi. Svo, þegar ég hafði lokið við að hreinskrifa Strengleika tók ég til að endursemja ýms drög frá síðasta ári mínu í Winnipeg. Það var því liðið fram á vetur þegar ég loksins tók aftur til við Friður á Jörðu, svo gekk það fremur stirðlega. Hvort tveggja var, að ég var kominn mjög úr tengslum við textann, sem ég hafði raunar aldrei komist verulega til ráðs við, og svo hitt, að ég var nú orðinn all mikið riðinn við allskonar söngstjórnar vafstur um þvera og endilanga byggðina, en það kostaði miklar skriftir, raddsetningar, ferðalögog umfram allt, margskonar truflanir, sem ávallt hafa verið mér hið mesta skaðræði, þegar ég hefði þurft að beita mér að listrænum störfum. Er það skjótast af að segja, að um jafnlengd næsta ár, haustið 1918, hafði ég klúðrað saman 22 númerum og aldrei komist forsvaranlega inn í verkið, enda samið ýmislegt sjálfstætt jafnframt. En nú kom Spænska veikin til sögunnar, og skaut algerlega slagbrandi fyrir allt samkvæmis vafstur, því að enginn þorði að umgangast annan nema úr hæfilegu kallfæri. Varð nú mikil breyting á vinnubrögðum mínum og afköstum, og lauk ég uppkastinu 20. mars 1919. Lá svo handitið óhreyft hjá mér í sjö ár, nema hvað ég lét syngja úr því einn kór á Íslendingadegi í Wynyard 1920 og þrjá kóra árið eftir í Elfros og Mozart. En árið 1926 hreinskrifaði ég til fullnustu fimm fyrstu númerin og samdi þá nýtt forspil. Og enn liðu sjö ár, þar til ég tók það fyrir til fulls, snemma í maí 1933 og lauk því 12. júní 1934.
Og fyst ÞÁ komst ég inn í verkið af lífi og sál, enda lætur nærri, að ég endursemdi það, að nokkru leyti, þar sem aðeins tvö númer eru óbreytt: nr.7 og nr. 44 en það var nr. 46 í uppkastinu. Þá eru nokkur númer smávægilega breytt, svo sem nr. 9, 13 og 15, sem áður voru 12 og 14, nr. 25, 27, 29, 31, 32, 36 og 43 og 46, sem áður voru nr. 45 og 47. Hinu er öllu meira og minna breytt.
Í uppkastinu voru fimmtíu númer. Þar af féllu algerlega niður ásamt textum: nr.1 (forspilið), nr. 37, 38, 48 og 50. Aftur er nr. 12 ásamt texta bætt inn í hreinskriftina, sömuleiðis nr. 47, og textinn undir nr. 23, sem fellt var niður, dreginn undir nr. 24.
Úr uppkastinu féllu niður nr. 1, 6, 10, 13, 23, 37, 38, 48, og 50 og nr. 15 og 16 að nokkru leyti, alls ellefu númer. Alveg ný eru númer, 1, 6, 10, 12, 14, 16 og 47, og nr. 17, að nokkru leyti. Þá er nr. 11 allbreytt í megindráttum og hin öll meira og minna, að undanteknum nr. 7 og 44, en munu þó flest halda sínum upprunalega svip í aðaldráttum því að grunnhendingar eru, víðast hvar lítt eða ekki breyttar.
Eftir þessu yngra handriti bjó ég svo verkið til prentunar með svo smávægilegum breytingum að varla er orðum að því eyðandi. Helstar þeirra munu vera niðurlagið á lokakór III þáttar, svo og niðurlagið á lokakór tónverksins.
Endursamning tónverksins frá nr. 5, sem var þó ekki full lokið, mun hafa tekið mig rúmlega13 mánuði. Mun ég hafa byrjað 7. – til 9. maí 1933, lauk fyrsta þætti 12. ágúst, og öðrum þætti 3. nóvember sama ár, þriðja þætti 9. maí 1934 og verkinu öllu 12. júní. En þó verkið sé þannig umsamið fimmtán ára gamalt, reyndi ég eftir megni að láta það halda sínum upprunalega blæ.
Akureyri 8. janúar 1948
Björgvin Guðmundsson.